Föstudaginn 11. október var Leikur að læra ráðstefnan haldin í fjórða sinn. Að þessu sinni var áhersla lögð á útinám og heiti ráðstefnunnar var Útinám er leikur einn! Rúmlega 400 kennarar tóku þátt í 16 vinnustofum í yndislegu umhverfi Garðyrkjuskólans að Reykjum í Hveragerði. Ævintýralegt umhverfi, faglegar vinnustofur og frábærir þátttakendur gerðu daginn heldur betur eftirminnilegan. Hægt var að velja um vinnustofur á borð við; Náttúrustígur, Skýli og skjól, Hreyfing og jóga, Fjölbreyttar útistöðvar, Skógurinn og blandaður aldur, Útinám þarf ekki að kosta mikið, Útikennslubakpokinn, Outdoor journey, Núvitund með börnum, Færni til framtíðar, Útikennslustöðvar á leikskólalóðinni, Tálgun, Hvernig vaxa plöntur og Leikur að læra. Það er greinilega mikill áhugi á ráðstefnu um útinám og við munum örugglega standa fyrir slíkri ráðstefnu aftur. Við viljum þakka nemendum í 10. bekk í Grunnskóla Hveragerðis fyrir frábæra aðstoð við að vísa þátttakendum á veginn.
Leikur að læra þakkar öllum sem komu á ráðstefnuna fyrir skemmtilegan dag😊